Erlent

Norrænir friðargæslumenn í hættu

Vopnahlé, sem norrænir eftirlitsmenn fylgjast með á Sri Lanka, er í uppnámi eftir bardaga á sjó og landi í dag. Talið er að minnst 45 hafi fallið. Íslenskur upplýsingafulltrúi norrænu eftirlitssveitanna segir að tveir norrænir eftirlitsmenn hafi verið í hættu, en þá hafi ekki sakað.

Átök á Sri Lanka hafa stigmagnast síðustu mánuði og hafa um 200 fallið. Rúmlega 60 þúsund manns hafa fallið í átökum síðan uppreinsnarmenn Tamíl tígra hófu baráttu sína fyrir sjálfsstjórn í norðri og austri árið 1983.

Helen Ólafsdóttir, er upplýsingafulltrúi friðargæslunnar á Sri Lanka. Hún segir að sjótígrarnir svokölluðu hafi látið til skrarar skríða á 20 bátum í dag, þó þeim sé meinað að sjósetja þá. Þeir hafi sökkt minnst einu skipi stjórnarhersins. Einnig gerðu uppreinsarmenn árásir á landi. Hún segir ómögulegt að segja hve margir hafi fallið en breska ríkisútvarpið BBC segir minnst 45 hafa fallið í átökum á sjó.

Tveir eftirlitsmenn á vegum friðargæslu voru um borð í einu skipi stjórnarhersins þegar árás var gerð en þá sakaði ekki. Helen segir eftir atburði síðustu mánaða að ómögulegt sé að sjá fyrir sér að deiluaðilar geti sest aftur að samningaborðinu.

Hún segir að nú verði rætt af alvöru við Tamíl tígrana sem eigi að gæta öryggis friðargæsluliða. Helen segir að stjórnarherinn þurfi einnig að svara ýmsu enda hafi hann stutt við klofningshóp út röðum Tamíl tígra og það bæti ekki ástandið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×