Erlent

Minnisvarði veitir upplýsingar

Fornleifafræðingar í Mexíkó hafa fundið minnisvarða höggvinn úr steindranga í norður hluta landsins. Hann gæti veitt nýjar upplýsingar um eina elstu þjóðmenningu álfunnar.

Súlan fannst þar sem verið var að vinna að endurbótum á áveituskurði þar sem grafið hefur verið eftir fornleifum í Tamtoc við San Luis Potosi, 885 kílómetra norður af Mexíkóborg. Súlan er 30 tonn að þingd og á henni að finna útskurð af ýmsu tagi. Hún er talin hafa verið gerð árið 900 fyrir Krist.

Það var á þeim tíma sem Olmekar byggðu suðuausturhluta Mexíkó, en sú menningarþjóð var þar fyrir tíð Astekana. Tímabil Olmekana varði á árunum 1300 til 400 fyrir Krist. Munir frá þessum tíma hafa aðallega fundist í Suður Mexíkó. Súlan og fundarstaður hennar benda til þess að Olmekar hafi einnig náð að festa rætur sínar í Norður Mexíkó eða farið þangað og átt samskipti við aðra þjóðflokka.

Reynist þetta raunin og uppruni súlunnar staðfestur verður það til að breyta sögu þeirra þjóðflokka sem byggðu álfuna á þessum tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×