Innlent

Golfvöllur í Viðey

Gofvöllur í Viðey myndi skila hagnaði að mati nemenda við háskólann á Bifröst. Nemendurnir könnuðu í síðasta misserisverkefni sínu hvort rekstralegur grundvöllur væri fyrir því að koma upp golfvelli á eyjunni. Segjast þeir hafa komist að því að frá árinu 2000 til 2005 hafi golfiðkendum á Íslandi fjölgað um 64% og nú sé svo komið að fæstir golfklúbbar anni eftirspurn. Þeir telja ónýtt útivistarsvæðið í Viðey því kjörið sem vallarsvæðil og segja í skýrslu sinni að vegna sérstöðu vallarsvæðisins megi taka 20% hærra gjald fyrir hringinn en annar staðar.Í niðurstöðu skýrslu sinnar drógu nemarnir því þá ályktun að hagkvæmt væri að að koma upp golfaðstöðu á eyjunni.

Gísli Marteinn Baldursson hafði þegar fengið skýrsluna til athugunar þegar NFS ræddi við hann. Gísli sagði hugmyndina með þeim skemmtilegri sem nú væru í umræðunni. Að auki benti hann á að ekki væri lokum fyrir það skotið að hafa bæði safn gamalla húsa frá Árbæjarsafni á eyjunni og golfvöll. Eyjan væri það stór að ein hugmynd um nýtingu svæðisins myndi ekki útiloka aðra.

Svandís Svavarsdóttir, sem skipar 1. sæti á lista Vinstri - grænna í borgarstjórnarkosningunum, var ekki sammála Gísla Marteini um þessa hugmynd. Hún sagði Viðey náttúruperlu sem ætti að vernda og varðveita, þá sérstaklega fjöruna í kringum eyjuna. Hún benti þó á að sér þætti mikilvægt að fjölga ferðum til og frá Viðeyjar svo hún gæti nýst borgarbúum sem best.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×