Erlent

Námaverkamönnunum loks bjargað

Tveir ástralskir verkamenn sem setið höfðu fastir í gullnámu í hartnær hálfan mánuð sluppu loks úr prísund sinni í morgun. Þeir voru glorhungraðir þegar þeir komu upp úr námunni en að öðru leyti amaði ekkert að þeim.

Mikill fögnuður ríkti við Beaconsfield-gullnámunni á áströlsku eynni Tasmaníu í morgun, þegar þeir Brant Webb og Todd Russell komu sótugir upp úr djúpri námunni. Réttar tvær vikur eru síðan þeir festust í lyftu í námugöngunum vegna hruns af völdum jarðskjálfta og urðu þeir að dúsa í búrinu allt þar til í morgun. Félagi þeirra sem var annars staðar í námunni dó í jarðskjálftanum en útför hans fór fram í dag. Því voru tvímenningarnir í fyrstu taldir af og urðu þeir að draga fram lífið á einu súkkulaðistykki og með því að lepja vatnsdropa sem seytluðu úr berginu. Björgunarsveitir komust fimm dögum eftir skjálftann að því lífsmark leyndist ofan í eins kílómetra djúpri námunni en sökum hörku bergsins gekk þeim afar hægt að bora sér leið að tvímenningunum. Til allrar hamingju var hægt að búa til örmjóa rás niður í jörðina og í gegnum hana var komið til þeirra vatni, matvælum og iPodspilara, svona rétt til að stytta þeim stundirnar. Þeir voru því ágætlega haldnir eftir dvölina í gullnámunni en voru samt til vonar og vara fluttir á sjúkrahús til aðhlynningar. Bæjarbúar brugðu sér hins vegar á næstu krá og slógu þar upp mikilli veislu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×