Erlent

Aðeins 30 prósent styðja Verkamannaflokkinn

Skiptar skoðanir eru um þá ákvörðun Tonys Blair, forsætisráðherra Bretlands, að greina ekki frá hvenær hann hyggst láta af embætti. Skoðanakannanir benda til að Verkamannaflokkurinn hafi ekki verið óvinsælli síðan 1992.

Breski Verkamannaflokkurinn með Tony Blair í brúnni siglir pólitískan ólgusjó um þessar mundir. Hann galt afhroð í ensku sveitarstjórnarkosningunum fyrir helgi og skoðanakönnun sem Lundúnablaðið Times birti í morgun bendir til að aðeins 30 prósent breskra kjósenda styðji hann, færri en nokkru sinni síðan árið 1992. Allhörð hríð hefur verið gerð að Tony Blair leiðtoga flokksins síðustu daga og þrýst á hann að víkja fyrir Gordon Brown, fjármálaráðherra. Á blaðamannafundi í gær hafnaði Blair því hins vegar algerlega að tímasetja brotthvarf sitt, slíkt myndi einungis skaða flokkinn.

Íhaldsmenn gráta þurrum tárum yfir sundrungunni í Verkamannaflokknum. David Cameron, leiðtogi þeirra, skaut föstum skotum að þeim Blair og Brown á fundi í gær.

Meira að segja íbúar bæjarins Sedgefield, sem er heimakjördæmi Blairs, telja að þingmaðurinn þeirra eigi að fara hugsa sinn gang.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×