Innlent

Aðeins eftir að semja í Sunnuhlíð

Álfheiður Bjarnadóttir, talskona ófaglærðra.
Álfheiður Bjarnadóttir, talskona ófaglærðra. MYND/Vilhelm Gunnarsson

Samningar hafa tekist milli ófaglærðra á Hrafnistu og forstöðumanna dvalar- og hjúkrunarheimilisins. Eftir því sem fréttastofa NFS kemst næst, þá eiga aðeins ófaglærðir á Sunnuhlíð í Kópavogi eftir að semja.

Álfheiður Bjarnadóttir, talskona ófaglærðra, segir að nokkur hópur kvenna hafi fundað með forstöðumönnum Hrafnistu í dag. Á fundinum var ófaglærðum boðið 15-22% launahækkanir, eftir launaflokkum. Ófaglærðir starfsmenn á Hrafistu funduðu síðdegis í dag þar sem fyrirkomulag launahækkunar var útskýrt fyrir ófaglærðum. Meirihluti hópsins samþykkti tilboð forstöðumanna hrafnistu, en þó voru ekki allir á eitt sáttir.

Álfheiður segir að fyrstu launahækkanirnar, alls 12%, muni taka gildi frá og með 1. maí en síðan mun launahækkunin vera í þrepum fram að áramótum þegar fullri launahækkun, miðað við nýja samninga, hefur verið náð.

Álfheiður segir að fimm starfsmenn hafi verið búnir að segja upp störfum áður en seinni fundurinn hófst en hún veit ekki til þess að fleiri starfsmenn hafi sagt upp störfum eða séu að íhuga uppsagnir. Hún segist þá ánægð með að samningar hafi náðst en setuverkfalli lauk um leið og launahækkanir höfðu verið samþykktar.

Þórunn Tyrfingsdóttir, talskona ófaglærðra á dvalar- og hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð segir að þar sé staðan óbreytt og setuverkfall sé í gangi. Ófaglærðir munu funda með forstöðumönnum Sunnuhlíðar á morgun og líklega munu eitthvað skýrast í stöðunni eftir þann fund.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×