Erlent

Mikill sigur fyrir Gíursany í Ungverjalandi

Stjórnarflokkarnir héldu velli í þingkosningum í Ungverjalandi, sem fram fóru í gær. Þeirra bíður það verkefni að ná niður mesta fjárlagahalla innan Evrópusambandsins. Núverandi ríkisstjórn hlaut 210 þingsæti af 386.

Sósíalistaflokkur forsætisráðherrans Ferens Gíursany og samstarfsflokkar hans voru úrslitunum glaðir. Áframhaldandi meirihluti er mikill persónulegur sigur fyrir forsætisráðherrann, sem reif upp fylgi sósíalista eftir að hann tók við embætti árið 2004. Hann hefur nú fengið afgerandi umboð til að halda áfram á þeirri braut sem stjórn hans hefur fetað undanfarin tvö ár.

Þetta er í fyrsta sinn sem ríkisstjórn heldur velli í landinu eftir fall kommúnismans árið 1989. Það er óhætt að segja að stöðugleiki sé kannski einmitt það sem þarf til að koma efnahag Ungverjalands á rétta braut. Fjárlagahalli er hvergi meiri innan Evrópusambandsins miðað við stærð efnahagsins og ljóst að það verður stærsta verkefni stjórnarinnar að ná honum niður. Evrópusambandið hefur ítrekað beint þeim fyrirmælum til Ungverja að ná fram stöðugleika í efnahagsmálum, eða verða að öðrum kosti refsað.

Ungverjar hafa fengið vilyrði fyrir að taka upp Evruna árið 2010, en það gæti hæglega þurft að bíða enn um sinn ef ekki tekst mjög fljótlega að ná tökum á fjárlagahallanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×