Innlent

Íslandsmeistarinn í blómaskreytingum karlkyns

Eini karlkyns þátttakandinn í Íslandsmeistarakeppninni í blómaskreytingum bar sigur úr býtum í keppninni sem fram fór í Hveragerði í dag. Einnig voru þar afhent Garðyrkjuverðlaunin fyrir árið 2006 og Umhverfisverðlaun Hveragerðisbæjar.

Í dag var opið hús í gamla Garðyrkjuskóla ríkisins við Hveragerði, sem nú er orðinn hluti af Landbúnaðarháskóla Íslands, en dagskráin var hluti af 60 ára afmælishátíð Hveragerðisbæjar. Margt var um manninn, enda blíða í lofti þennan fyrsta dag sumarsins. Forsetahjónin voru á svæðinu en forsetinn afhenti meðal annars fulltrúum Dvalarheimilisins Áss í Hveragerði Umhverfisverðlaun bæjarins árið 2006.

Einnig voru Garðyrkjuverðlaunin fyrir þetta árið afhent sem að þessu sinni féllu í skaut Hermanns Lundholms, en hann starfaði sem garðyrkjuráðunautur hjá Kópavogsbæ um árabil.

Þá hlaut Steinar Björgvinsson verðlaun fyrir fyrsta sætið í Íslandsmeistarakeppninni í blómaskreytingum, en hann var eini fulltrúi karlpeningsins af ellefu keppendum. Steinar var reyndar að verja titilinn því hann vann hann einnig árið 2004, en keppnin er aðeins haldin annað hvert ár.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×