Erlent

Kanna smit í fjórtán fuglum

Mæðgin ganga framhjá fuglum við tjörn í Belfast á Norður-Írlandi.
Mæðgin ganga framhjá fuglum við tjörn í Belfast á Norður-Írlandi. MYND/AP
Grunur leikur á að fjórtán ný fuglaflensutilfelli hafi komið upp í Skotlandi, en hinn banvæni stofn fuglaflensu greindist í fyrsta sinn í Bretlandi í gær. Öruggt þykir að fuglaflensa berist til Íslands á næstunni.

Enn á eftir að greina fjórtán fugla sem grunur leikur á að séu smitaðir af H5N1 stofni fuglaflensunnar. Um er að ræða villta fugla og eru tólf þeirra svanir. Yfir 2.500 metra svæði hefur verið sett í sóttkví eða sem nemur einum fertugasta af Íslandi.

Skotar reyna allt hvað þeir geta til að koma í veg fyrir að fuglaflensan breiðist út. Breskir ráðamenn reyndu í morgun að draga úr áhyggjum almennings sem óttast þau áhrif fuglaflensunnar.

Öruggt þykir að fuglaflensa berist hingað til lands þar sem fjöldi farfulga kemur hingað frá Bretlandseyjum. Viðbúnaðarstig tvö hefur því verið setta á hér á landi. Það þýðir að skylt er að hafa alla alifugla innandyra. Hænur eiga því ekki að vera á bæjarhlöðum heldur inni. Þrátt fyrir að ómögulegt sé að tryggja að smitaðir villtir fuglar komi ekki til landsins er reynt að tryggja að smit berist ekki úr þeim í alifugla. Sterk norðanátt hefur verið undanfarið og því lítið af farfuglum komið til landsins sem dregur úr líkum á smituðum fuglum á Íslandi. Um tvö hundruð manns hafa sýkst af fuglaflensu í heiminum hingað til og þar af hafa tæplega hundrað látist, flestir í Asíu. Enginn hefur þó smitast beint af farfuglum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×