Erlent

H5N1 sagt hafa greinst í Skotlandi

Höfnin í Cellardyke á austurströnd Skotlands þar sem svanshræið fannst fyrir 8 dögum.
Höfnin í Cellardyke á austurströnd Skotlands þar sem svanshræið fannst fyrir 8 dögum. MYND/AP

Að sögn bresku Sky fréttastofunnar hefur hið banvæna H5N1 afbrigði fuglaflensu greinst í hræi af svani sem fannst í Skotlandi í síðustu viku. Bresk yfirvöld hafa þó ekki staðfest þetta formlega. Fari svo má gera ráð fyrir að viðbúnaðarstig hér á landi verði aukið.

Flestir farfuglar sem verpa á Íslandi koma við í Skotlandi á leið sinni hingað til lands. Því hefur verið ályktað að fuglaflensan greinist ekki hér fyrr en hún hefur fyrst fundist á Bretlandseyjum.

Halldór Runólfsson, yfirdýralæknir, sagði í samtali við NFS að ef það kæmi í ljós veiran væri af H5N1 stofni yrði viðbúnaðarstig hér á landi hækkað í stig tvö.

Breska Sky fréttastöðin greindi frá því að rannsóknir á svanshræi sem fannst í Cellardyke í Fife í Skotlandi fyrir átta dögum hefðu staðfest að svanurinn var sýktur af H5N1 afbrigði sjúkdómsins sem greinst hefur í mönnum.

Þriggja kílómetra verndarsvæði hefur verið reist um svæðið þar sem hræið af svaninum fannst. Yfirvöld hafa skipað þeim sem eru með alifugla á svæðinu að hafa þá innandyra til að einangra þá frá villtum fuglum. Þá verða settar takmarkanir á flutning með hænur, egg og aðrar alifuglaafurðir á svæðinu.

Samkvæmt fréttavef BBC hefur H5N1 afbrigðið greinst í fuglum í einangrun á Bretlandseyjum en ekki í villtum fuglum fyrr.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×