Innlent

Markaðurinn á fleygiferð

Úrvalsvísitalan hækkaði um tæp tvö prósent í dag eftir miklar lækkanir að undanförnu. Mest hækkuðu bréf Flögu eða um 24 prósent og er óhætt að segja að hlutabréfamarkaðurinn hafi verið á fleygiferð að undanförnu, aðallega þó niður á við eftir neikvæða umræðu erlendra banka um íslenskt efnahagslíf. Í gær sendi matsfyrirtækið Moody's síðan frá sér tvær skýrslur þar sem lánshæfismat ríkisins annars vegar, og stóru bankanna þriggja hins vegar, er staðfest. Segja þeir áhyggjur af greiðsluhæfi og lausafjáráhættu ríkissjóðs meiri en efni standi til. Landið sé auðugt og uppbygging hagkerfisins verði stöðugt fjölbreyttari. Sterk staða ríkisins auðveldi því að styðja við fjármálageirann, skyldi hann verða fyrir áföllum.

Markaðurinn brást vel við skýrslum Moodys í morgun og hækkaði úrvalsvísitalan um tæp tvö prósent. Mest hækkuðu bréf Flögu eða um 24 prósent eftir að hafa fallið um 20 prósent deginum áður. Sérfræðingar á markaðinum eru sammála um að mestu lækkanir séu líkleg að baki og við taki nú stöðugra tímabil. Kauptækifæri hafi vissulega skapast en markaðurinn sé þó mjög viðkvæmur fyrir öllum fréttum. Nú sé unnið hörðum höndum við að upplýsa sérfræðinga og fjölmiðla erlendis um íslenskt efnahagslíf sem Íslendingar hafa vissulega verið sakaðir um að hafa ekki staðið sig vel í.

Sérfræðingar hérlendis eru einnig sammála um að íslenski markaðurinn sé ekki óþroskaður og á mörgum sviðum sé hann til að mynda kominn lengra en aðrir. Og þrátt fyrir að erlendir sérfærðingar hafi talað á neikvæðum nótum og af vanþekkingu, er áhugi útlendinga á íslenskum markaði enn til staðar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×