Erlent

Ákærður fyrir fjöldamorð á Kúrdum

Saddam Hussein hefur verið ákærður fyrir þjóðarmorð á íröskum Kúrdum á níunda áratugnum. Allt að hundrað og áttatíu þúsund manns eru taldir hafa týnt lífi í fjöldamorðunum.

Réttarhöldin sem nú standa yfir í Bagdad yfir Saddam Hussein og félögum hans snúast um morð á 147 sjíum frá bænum Dujail árið 1982. Engum hefur dulist að einræðisherrann fyrrverandi hefur haft ýmis önnur og verri óhæfuverk á samviskunni en samt hefur ekki verið ljóst hvort hann yrði látinn svara til saka fyrir þau. Í dag lýsti hins vegar Raid Juhi rannsóknardómari því yfir að Saddam yrði ákærður fyrir þjóðarmorð og glæpi gegn mannkyni vegna ofsókna gegn Kúrdum, svonefndri Anfal-herferð. Mannréttindasamtök telja að allt að 180.000 manns hafi látist í morðunum sem ráðist var undir lok stríðsins gegn Írönum á ofanverðum níunda áratugnum. Versta ódæðið var unnið í bænum Halabja þar sem fimm þúsund manns, konur og börn þar á meðal, voru stráfelld með eiturgasi. Frændi Saddams, Ali Hassan Majid, sem nefndur hefur verið Efnavopna-Ali, er sagður hafa skipulagt það voðaverk en hann er á meðal þeirra sex sem eru ákærðir með forsetanum. Málflutningur hefst ekki fyrr en í fyrsta lagi eftir hálfan annan mánuð en ekki er víst hvort hann fari fram samhliða hinum réttarhöldunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×