Innlent

Þýska safnið komið til Hafnarfjarðar

Bókasafn Hafnarfjarðar mun framveigis hýsa þýska bóksafnið fyrir Goethe-Zentrum á Íslandi. Um er að ræða bækur, geisladiska, hljóðsnældur og myndbönd á þýskri tungu, alls 6500 titla.

Johann Wenzel, sendiherra Þýskalands á Íslandi, var meðal gesta sem fylgdist með þegar Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri í Hafnarfirði, og Oddný G. Sverrisdóttur, formanður Hollvinafélags Goethe-Zentrum undirrituðu samstarfsyfirlýsingu. Hollvinafélagið gefur bókasafni Hafnarfjarðar þá þýsku titla sem um ræðir en aðilar samningsins stefna auk þess að auknu samstarfi til að styrkja enn frekar menningarleg samskipti milli Íslands og þýskalands. Anna Sigríður Einarsdóttir, forstöðumaður Bókasafns Hafnarfjarðar segir þýska bókasafnið vera mikinn feng fyrir safnið og vonast til að fjöldi safngesta muni aukast.

Fyrst um sinn verða það einkum barnabækur, myndbönd og geisladiskar til útláns sökum plássleysis, en um gríðarlegt magn titla er að ræða sem taka um 130 metra af hilluplássi. Áform eru um að hefja stækkun bókasafns Hafnarfjarðar árið 2008. Gerð verður sérdeild innan safnsins fyrir þýska bókasafnið og allir titlar verða til útláns.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×