Erlent

Snurða hlaupin á þráðinn

Ehud Olmert (t.v.), starfandi forsætisráðherra Ísraels, og Moshe Katsav, forseti, ræða málin.
Ehud Olmert (t.v.), starfandi forsætisráðherra Ísraels, og Moshe Katsav, forseti, ræða málin. MYND/AP

Talið er að snurða hafi þegar hlaupið á þráðinn í óformlegum stjórnarmyndunarviðræðum Kadima-flokksins og Verkamannaflokksins í Ísrael. Formlega viðræður hefjast ekki fyrr en í lok vikunnar þegar forseti landsins hefur ákveðið hvaða flokkur fær umboð til stjórnarmyndunar.

Formlegur undirbúningur fyrir stjórnarmyndunarviðræður hófust í Ísrael í dag en kosið var til þings í landinu í síðustu viku. Fulltrúar ísrelsku flokkanna áttu þá fund með Moshe Katsav, forseta, og gerðu tillögur um hvaða flokkur ætti að fá stjórnarmyndunarumboð. Búist er við að það ferli standi í nokkra daga og forsetinn tilkynni um ákvörðun sína í lok vikunnar og þá hefjast formlegar viðræður þó þreifingar hafi farið af stað þegar að kosningum loknum.

Fulltrúar Kadima-flokks Ehuds Olmerts, starfandi forsætisráðherra, fóru fyrst á fund forsetans í morgun og lögðu til að Olmert yrði falið umboð til að mynda næstu stjórn. Kadima-flokkurinn fékk mest fylgi í kosningunum og hlaut tuttugu og níu þingsæti af hundrað og tuttugu.

Búist er við að Verkamannaflokkurinn sé efst á óskalista Olmerts yfir samstarfsflokka sökum þess að hann er næst stærstu á þingi og mun styðja áætlanir hans um brotthvarf gyðinga frá flestum landtökubyggðum á Vesturbakkanum.

Talið er þó að snurða hafi hlaupið á þráðinn í óformlegum viðræðum en írsraelska útvarpið greinir frá því að Verkamannaflokurinn ætli að leggja það til við Katsav forseta að Amir Peretz, formanni flokksins, verði falið umboðið svo hann geti myndað stjórn með þeim flokkum sem vilji leggja meira fé í félagslega þjónustu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×