Erlent

Elstu skógar Austur-Asíu að hverfa

MYND/AP

Ef haldið verður áfram að höggva niður tré í Austur-Asíu á þeim hraða sem nú er gert, verða elstu skógar á svæðinu horfnir innan áratugar. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Grænfriðunga.

Aukin eftirspurn Kínverja eftir viði gerir það að verkum að skógarhögg í fornum skógum í Austur-Asíu hefur aukist til muna. Þá segir í skýrslunni að 80 til 90% af því skógarhöggi sem eigi sér stað í Indónesíu og Papúa Nýju-Gíneu sé ólöglegt.

Við komuna til Kína eru smíðuð húsgögn, gólfklæðingar og krossviður úr timbrinu sem eru ætluð fyrir innlendan markað sem og til útflutnings. Aðal útflutningsstaðirnir eru Bandaríkin, Japan og Evrópa. Talsmaður utanríkisráðuneytis Kína sagði í dag að ríkisstjórnin hafi ávallt verið á móti ólöglegu skógarhöggi. Mikilvægt sé þó að tekið sé á vandanum á heimsvísu, þetta sé jú alþjóðavandamál.

Fram kemur í skýrslunni að innan áratugar munu regnskógar á láglendinu í Indónesíu hverfa ef skógarhöggið fær að halda áfram á núverandi hraða. Sömu sögu mætti segja um skógana í Papúa Nýju-Gíneu.

Grænfriðungar benda á nokkrar leiðir til þess að ráða bót á vandanum. Yfirvöld í Kína og ríkisstjórnir annarra þjóða eru hvattar til þess að innleiða lög er banna út- og innflutning á timbri sem koma frá ólöglegum aðilum. Þá er lagt til að dregið verði úr eftirspurn ríkra þjóða eftir timburvörum. Þannig megi koma í veg fyrir að skógar heimsins eyðist upp.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×