Erlent

Ákvörðun Frakklandsforseta fordæmd

Fulltrúar stúdenta fylgdust með ræðu Chriacs Frakklandsforseta í gær.
Fulltrúar stúdenta fylgdust með ræðu Chriacs Frakklandsforseta í gær. MYND/AP

Verkalýðsfélög og stúdentar fordæma þá ákvörðun Chiracs Frakklandsforseta að staðfesta umdeilda vinnulöggjöf sem mótmælt hefur verið víða um Frakkland síðustu vikur. Forystumenn verkalýðshreyfingarinnar ætla áfram að stefna á allsherjarverkfall í landinu í næstu viku.

Í sjónvarpsávarpi í gærkvöldi kynnti Frakklandsforseti þá ákvörðun sína að staðfesta lögin. Mótmælendur höfðu safnast saman í miðborg Parísar í gær til að hlýða á ræðu forsetans og heyra hvað hann hefði fram að færa. Chirac sagðist aðeins staðfesta lögin ef breytingar yrðu gerðar á tveimur umdeildum ákvæðum.

Samkvæmt lögunum er atvinnurekendum heimilt að segja upp starfsfólki sem er yngra en 26 ára eftir tveggja ára reynslutíma og það án skýringa. Þessu vill forsetinn að verði breytt þannig að reynslutíminn verði eitt ár og atvinnurekendum verði gert að gefa skýringar á brottrekstri. Þegar varð ljóst að það sem forsetinn hafði fram að færa var ekki ásættanlegt í augum mótmælenda en engar fregnir hafa borist af alvarlegum átökum í nótt.

Stjórnmálaskýrendur segja ákvörðun forsetans ekki gagnast neinum í þessari deilu. Þetta veiki stöðu Dominique de Villepin, forsætisráðherra, sem hafi barist fyrir því að lögin standi en stjórnvöld telji þau draga úr atvinnuleysi meðal ungs fólks sem er sögð ein helsta ástæðan fyrir óeirðunum í Frakklandi í fyrra.

Ákvörðun forsetans er einnig talin eiga eftir að valda óánægju hjá þeim sem vilji gera breytingar í frönsku efnahagslífi og geri lítið til að lægja öldurnar meðal mótmælenda.

Forystumenn verkalýðsfélaga segja að ræða forsetans breyti engu. Engu verði breytt hvað varðar áform um allsherjarverkfall sem hefur verið boðað í einn sólahring og á að hefjast á þriðjudaginn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×