Erlent

Ár flæða yfir bakka sína í Evrópu

Flóð í Tékklandi.
Flóð í Tékklandi. MYND/AP

Ár flæða nú yfir bakka sína í sex ríkjum Mið- og Austur-Evrópu og valda miklum skemmdum. Minnst fjórir hafa farist í flóðunum. Vatn flæðir um götur og inn í hús og hefur þurft að flytja mörg þúsund manns frá heimilum sínum.

Ár hafa flætt yfir bakka sína í Austurríki, Póllandi, Rúmeníu, Slóvakíu, Tékklandi og Þýskalandi síðustu daga sökum mikilla rigninga og asahláku. Vatn hefur helst flætt inn í hús í Tékklandi og Þýskalandi og hafa mörg þúsund manns þurft að yfirgefa heimili sín nálægt landamærum ríkjanna.

Fjórir hafa farist í flóðunum í Tékklandi, þar á meðal tveir menn sem drukknuðu í bíl annars þeirra þegar hann hafnaði í beljandi fljóti. Rýma þurfti vöggustofu í bænum Olomouch í dag þar sem ekkert lát var á vatnavöxtum í nærliggjandi á. Börnin voru flutt í rútur sem fluttu þau í aðra byggingu sem stendur hærra.

Bætin Rathen í Þýskalandi hefur orðið illa úti þar í landi. Bæjarstjórinn segir yfirvöld reiðubúin til að taka á málum ef vatnshæð á svæðinu nær tæpum níu metrum. Allt umfram það verði þó erfiðara að takast á við.

Í bænum Rzeszowa, hundrað og fimmtíu kílómetrum austur af Krakow í Póllandi, nær vatn upp fyrir umferðarskilti og tré og vatn flæðir um flesta vegi.

Yfirvöld í Þýskalandi segja líklegt að vatnshæðin nái hámarki um helgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×