Erlent

Minnst 70 fórust í jarðskjálfta

Að minnsta kosti 70 manns létu lífið í snörpum jarðskjálftakippum í Íran í nótt. Óttast er að tala látinna eigi eftir að hækka.

Sorgin ríkti í fjallahéruðum Írans í dag, eftir skjálftann í nótt. Að minnsta kosti 330 þorp urðu fyrir verulegum skaða, sum þannig að hvert hús hrundi. Á þessum slóðum búa flestir í múrsteinshúsum. Um tólf hundruð manns slösuðust í skjálftanum. Margir krömdust þegar múrsteinar og viðarbitar féllu ofan á þá. Jarðskjálftinn varð í Lorestan sýslu suðvestur af höfuðborginni Teheran. Allir spítalar á svæðinu eru fullir af slösuðu fólki.

Margir hafa búið um sig í tjöldum, jafnvel í bæjum og þorpum þar sem litlar skemmdir urðu, enda veruleg hætta á eftirskjálftum. Fyrir rúmum tveimur árum létust vel yfir þrjátíu þúsund manns í jarðskjálfta í borginni Bam í Íran.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×