Erlent

Lítil trú á stjórninni

Stuðningsmenn hægriflokka í Ísrael spá því að samsteypustjórn undir forystu Kadima og Olmerts verði skammlíf, og enn skammlífari verði Palestínumönnum afhentur hluti af Vesturbakkanum.

Ismail Haniya, nýsvarinn forsætisráðherra heimastjórnar Palestínu, sagðist í gær vonast til að friður myndi nást á milli Ísraela og Palestínumanna. Hann sagði þó friðarferlið vera alfarið í höndum Ísraela sem myndu ekki fá að ákveða einir landamæri Ísraels eins og þeir hafa sagst ætla að gera. Þá sagði hann Hamas stefna að stofnun Palestínuríkis með Jerúsalem sem höfuðborg. Haniyeh sagði þó í gærkvöldi að hann myndi veita Mahmoud Abbas, leiðtoga Palestínumanna, svigrúm til að reyna samningaviðræður við Ísraela óskaði hann eftir því. George Bush forseti Bandaríkjanna bauð í gær Olmert í heimsókn til Bandaríkjanna, strax og hann hefur myndað nýja ríkisstjórn en líklegt þykir að það verði með Verkamannaflokknum og öðrum minni flokkum. Olmert hefur að undanförnu kynnt áætlun um að fækka minni landnemabyggðum Gyðinga á Vesturbakkanum en stækka önnur. Íhaldsmenn segja að almenningur muni ekki fylgja Olmert í blindni og spá stjórninni skammlífi. Kadima telur að það taki minnst ár að rýma stöku landnemabyggðir á Vesturbakkanum, stækka aðrar, og ganga frá landamærum ríkis Palestínumanna. Viðbúið er þó að Hamas streytist á móti en Bandaríkin Evrópusambandið, Rússland og Sameinuðu þjóðirnar hafa sagt að Hamas verði að viðurkenna ríkisrétt Ísraels, hætta ofbeldi og taka þátt í friðarviðræðum. Að öðrum kosti verði öll aðstoð felld niður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×