Erlent

Erfitt gæti reynst að mynda starfhæfa stjórn í Ísrael

Benjamin Netanyahu, formaður Likud-bandalagsin, og eiginkona hans Sara á kjörstað í morgun.
Benjamin Netanyahu, formaður Likud-bandalagsin, og eiginkona hans Sara á kjörstað í morgun. MYND/AP

Tuttugu og fimm þúsund her- og lögreglumenn, gráir fyrir járnum vakta alla kjörstaði í Ísrael, þar sem sögulegar þingkosningar fara fram í dag. Fylgi við Kadima flokkinn virðist vera að minnka og erfitt gæti reynst að mynda starfhæfa ríkisstjórn að loknum kosningum.

Hvarvetna mátti sjá vopnaða lögreglumenn þegar birta tók í Ísrael í morgun. Aldrei hefur öryggisgæsla verið jafnmikil fyrir kosningar í landinu og yfirvöld greinilega staðráðin í að láta palestínska skæruliða ekki trufla þennan sögulega dag. Fjórar og hálf milljón manna eiga þess kost að kjósa á meira en átta þúsund kjörstöðum í dag.

Síðustu skoðanakannanir benda til þess að Kadima flokkurinn, sem Ariel Sharon stofnaði fái rúmlega þrjátíu þingsæti af eitthundrað og tuttugu, sem er nokkru minna en undanfarnar vikur.

Sjálfur liggur Sharon enn í dái eftir alvarlegt heilablóðfall, en Ehud Olmert, arftaki hans fer fyrir Kadima flokknum. Hann hefur heitið því að marka endanleg landamæri Ísraels fyrir árið 2010. Það gæti reynst erfitt ef fylgið verður ekki meira en síðustu kannanir benda til. Sjálfur hefur Olmert sagt að flokkurinn þurfi fjörutíu sæti til að mynda stöðuga ríkisstjórn, sem myndi vinna markvisst að áætlunum hans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×