Erlent

4000 lögreglumenn í viðbragðsstöðu

Dominque de Villepin, forsætisráðherra Frakklands (t.v.), hér ásamt Gilles de Robien, ráðherra menntamála.
Dominque de Villepin, forsætisráðherra Frakklands (t.v.), hér ásamt Gilles de Robien, ráðherra menntamála. MYND/AP

Um 4000 lögreglumenn verða á ferðinni í miðborg Parísar á morgun en um tvö hundruð mótmælasamkomur eru fyrirhugaðar um allt Frakkland, sú stærsta í höfuðborginni. Þá ætla fjölmargir Frakkar að mótmæla nýrri vinnulöggjöf landsins.

Þetta yrðu sjöttu skipulögðu mótmælin í höfuðborginni á hálfum mánuði. Mótmælendur hafa þá sumir hverjir gripið til ofbeldisverka og látið flöskum og grjóthnullungum rigna yfir óeirðalögreglu sem hefur svarað með táragasi.

Deilt eru um löggjöfina sem Dominique de Villepin, forsætisráðherra, hefur barist fyrir að koma í gegn. Stjórnvöld segja hana draga úr atvinnuleysi, sér í lagi meðal ungs fólks. Þetta segja verkalýðsfélög og stúdentar hreina vitleysu, auðveldara sé nú að reka ungt fólk á skýringa.

Fjölmörg verkalýðsfélög hafa hótað verkfallsaðgerðum og hefur parísarlögreglan heitið hertu eftirliti með lestarkerfi landsins nú þegar stefnir í að almenningssamgöngur og jafnvel flug raskist vegna aðgerða til höfuðs löggjöfinni. Eftirlit með neðanjarðarlestarkefinu verður aukið og stuðst við tæplega fjögur hundruð eftirlitsmyndavélar.

Talið er að þróun mála þá viku sem nú fer í hönd muni skipta miklu fyrir de Villepin, forsætisráðherra, sem hefur neitað að gefa eftir í málinu. Ný könnun sem franska blaðið Le Monde birti í dag sýnir að 63% Frakka eru andvíg nýju lögunum og vinnuaðferðum forsætisráðherrans. De Villepin hefur þó hert róðurinn í baráttunni og átt fundi með forystumönnum verkalýðsfélaga og stúdenta en án árangurs.

Stjórnmálaskýrendur telja forsætisráðherrann líta svo á að hann geti ekki bakkað í málinu, það væri merki um veikleika. Hann verði að halda málinu til streitu og vona að það skaði hann ekki um of í baráttunni um forsetaembættið á næsta ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×