Innlent

Bóluefnin virka tæpast

MYND/Stefán Karlsson

Dr. Isabelle Bonmarin, farsóttafræðingur við Heilbrigðiseftirlitsstofnun Frakklands segir bóluefni sem verið er að þróa gegn veirunni eins og hún er í dag muni hafa lítið sem ekkert gagn ef til þess kemur að veiran stökkbreytist þannig að hún smitist milli manna.

Hún segir að bóluefni gegn hefðbundinni inflúensu dugi ekki hót. Ef til þess kemur að veiran stökkbreytist þannig að hún berst á milli manna þá er ómögulegt að vita hvort bóluefni sem verið er að þróa gegn veirunni í dag muni hafa nokkuð að segja. Ef þau hafa einhverja virkni er hins vegar ljóst að hún verður ekki mikil.

Dr. Bonmarin vinnur að eftirliti með þróun fuglaflensuveirunnar og útbreiðslu hennar í Frakklandi. Hún er stödd hér á landi vegna ráðstefnu á vegum læknadeildar Háskóla Íslands og sóttvarnarlæknis.

Hún segir alls ekki ólíklegt að fuglaflensan verði að heimsfaraldri sem smitist meðal manna. Farsóttir eru fyrirbæri sem er jafngamalt lífi á jörðinni og koma jafnan upp tvær til þrjár á hverri öld. Sú síðasta geisaði árið 1968 og aðeins tímaspursmál hvenær næsta farsótt kemur upp. Fuglaflensuveiran H5N1 kemur sterklega til greina sem næsta farsótt þar sem hún sé ný af nálinni og lífríki jarðarinnar þekki hana ekki. Hins vegar sé ómögulegt að segja hvort og þá hvenær veiran stökkbreytist þannig að hún berist manna á millum, en það er nauðsynlegur þáttur í því hvort hún breiðist út sem alheimsfarsótt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×