Erlent

Drap sex og svo sjálfan sig

Gleðskapur ungmenna í Seattle í Bandaríkjunum breyttist í martröð í gær, þegar einn samkvæmisgestanna hóf skothríð með þeim afleiðingum að sex týndu lífi. Þegar lögregla kom á staðinn skaut hann sjálfan sig í höfuðið.

Ekkert óvenjulegt virðist hafa verið á seyði í samkvæminu, þegar maðurinn, sem var á þrítugsaldri gekk á dyr, og út í bíl, sótti þar skammbyssu og haglabyssu, sneri aftur og hóf skothríðina. Fyrst myrti hann tvo veislugesta sem voru fyrir utan húsið og að því loknu óð hann inn og linnti ekki látum fyrr en fjórir í viðbót höfðu týnt lífi. Að sögn vitna rigndi skotunum úr byssum mannsins, en hann sagði ekki aukatekið orð á meðan á látunum stóð. Tveir særðust í kúlnahríðinni, þar af annar lífshættulega. Maðurinn var ekki hættur að skjóta þegar lögregla kom á staðinn aðeins örfáum mínútum eftir að skothríðin hófst. Þegar lögreglumenn skipuðu manninum að leggja frá sér vopn, skipti engum togum að hann rak byssuna upp í sig og tók í gikkinn.

Ekki er vitað hvers vegna þetta skelfilega æði greip manninn, en ekkert bendir til að rifrildi eða hótanir hafi átt sér stað í aðdraganda brjálæðisins. Árásarmaðurinn hafði ekki áður komist í kast við lögin og var að sögn þeirra sem hann þekktu, bæði rólegur og hógvær. Vitað er að veislugestir höfðu haft áfengi um hönd og einhverjir reykt maríjúana, en lögregla vill ekki gefa upp hvort árásarmaðurinn hafi verið undir áhrifum vímuefna.

Atburðir gærdagsins eru mestu fjöldamorð í Seattle í meira en tuttugu ár.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×