Erlent

Grunaðir um stríðsglæpi

Tólf bandarískir landgönguliðar í Írak sæta nú rannsókn en þeir eru grunaðir um stríðsglæpi. Þeir eru sakaðir um að hafa myrt fimmtán óbreytta borgara, þar á meðal þriggja ára stúlku, í bænum Haditha í Vestur-Írak í nóvember í fyrra.

Rannsóknarmenn frá Bandaríkjaher eru komnir til Íraks til að rannsaka ásakanirnar. Íbúar á svæðinu segja að ódæðin hafi verið framin skömmu eftir að vegsprengja varð landgönguliða að bana. Þá hafi hersveit farið í nálæg hús og liðsmenn hennar skotið fimmtán manns úr tveimur fjölskyldum, þar á meðal sjö konur og þrjú börn.

Landgönguliðarnir sögðu fyrst að fólkið hefði fallið þega vegsprengja sprakk en það var fljótlega afsannað. Landgönguliðarnir sögðu þá að setið hefði verið um hersveit þeirra og til skotbardaga hefði komið. Átta andspyrnumenn og fimmtán almennir borgarar hefðu legið í valnum. Spurningin nú er því hvort fólkið hafi látið lífið í skotbardaga hermanna og andspyrnumanna eða landgönguliðarnir hafi myrt það með köldu blóði.

Bandaríska fréttatímaritið Time tók málið upp fyrir skömmu og hafði þá undir höndum myndband sem írösk mannréttindasamtök létu því í té. Það sýnir eftirmál átaka - heimili fólksins þar sem allt er þakið blóði og göt eftir byssukúlur upp um alla veggi. AP-fréttastofan hefur nú birt myndbandið en segist ekki geta lagt mat á hvort það sé ófalsað.

Írakar hafa oft sakað Bandaríkjamenn um stríðsglæpi. Bandaríkjamenn segja að þetta mál verði rannsakað ofan í kjölinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×