Erlent

Íraksstríðið ástæða brotthvarfs varnarliðsins

MYND/ÆMK

Bandarískur sérfræðingur um alþjóðasamskipti segir að stríðið í Írak sé ástæða þess að Bandaríkjastjórn leggi svo mikla áherslu á að kalla sveitir og búnað heim frá Íslandi.

Stríðið í Írak veldur því að Bandaríkjaher hefur gífurlega þörf fyrir mannafla og hergögn. Herinn á erfiðara með að laða til sín nýja hermenn, eldri hermenn hætta fremur en fara í þriðja sinn til Íraks og kostnaðurinn við hersetuna hleðst upp.

Kristinn Hrafnsson fréttamaður ræddi við Charles Kupchan, þekktan sérfræðing um alþjóðasamskipti við Georgetown háskóla í Washingtonborg.

Kupchan segir að það megi ekki vanmeta hversu skaðlegt stríðið í Írak sé bandaríska hernum. Bæði hvað varðar siðferðisþrek og mannafla. Það sé orðið stöðugt erfiðara að fá fólk til að skrá sig í herinn. Það sé stöðugt erfiðara að halda fólki í hernum. Þetta sé ekki vinsælt stríð innan hersins og það knýr menn til þess að hagræða annars staðar í heiminum.

Áframhaldandi vera hersins á Íslandi kann að vera smáatriði í því stóra dæmi, en það munar um allt. Björn Bjarnason sagði í þættinum Skaftahlíð um helgina að hann hefði orðið var við þetta á fundi í Varnarmálaráðuneytinu árið 2004.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×