Erlent

Viðræður boðaðar við íslensk stjórnvöld.

Scott McClellan, talsmaður Hvíta hússins, kvaðst á fréttamannafundi í gær búast við að viðræður myndu senn hefjast á milli íslenskra og bandarískra stjórnvalda. Bandaríkjamenn væru enn einhuga um að tryggja varnir Íslands.

"Í fyrsta lagi þá eru Bandaríkin einhuga um að halda áfram að tryggja varnir Íslands og halda áfram því samstarfi á vettvangi Atlantshafsbandalagsins sem tíðkast hefur í meira en hálfa öld. Þú vísar til varanlegrar setu allstórs herliðs á Íslandi. Bush forseti er samþykkur hugmyndum Rumsfeld landvarnaráðherra um að hætta að halda úti föstu herliði á Íslandi. Við létum íslensk stjórnvöld vita af þessari ákvörðun í þessari viku og hún myndi koma til framkvæmda ekki síðar en í september næstkomandi. Eftir það hafa engar bandarískar sveitir fasta viðveru á Íslandi. Samt sem áður teljum við okkur skuldbundin að sjá Íslendingum fyrir vörnum. Við reiknum með að hefja fljótlega viðræður við íslensk stjórnvöld með það fyrir augum að nútímavæða öryggissamvinnu okkar eins og frekast er kostur, með hliðsjón af nútímaógnum á borð við hryðjuverk, smygl á fólki og annars konar skipulagðri alþjóðlegri glæpastarfsemi," sagði McClellan á fundinum í Hvíta húsinu í gær.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×