Erlent

Ekki þörf á sýnilegum loftvörnum

MYND/TEITUR

Íslendingar þurfa ekki sýnilegar loftvarnir, segir forstöðumaður sænsku friðarrannsókna- stofnunarinnar SIPRI. Íslendingar verði að sætta sig við að engin þjóð muni senda hingað tæki og mannafla í líkingu við þann sem verið hefur í Keflavík.

Alyson Bailes, forstöðumaður sænsku friðarrannsóknarstofnunarinnar SIPRI, segir það hafa legið í loftinu lengi að bandaríski herinn færi burt frá Íslandi. Undanfarin ár hafi allt bent í sömu átt, en það sé hins vegar leiðinlegt hvernig ákvörðunina beri að og að Bandaríkjamenn hafi tekið hana einhliða.

Það sé skiljanlegt að það falli Íslendingum ekki vel í geð hvernig staðið hafi verið að ákvörðuninni, en Bandaríkjamenn hafi komið eins fram við aðrar þjóðir. Nú verði Íslendingar einfaldlega að horfast í augu við raunveruleikann, sem sé sá að hér verði ekki utanaðkomandi her í sama mæli og verið hefur. Bailes segir að Íslendingar geti ekki búist við að Evrópuríki komi hingað með herlið til að leysa bandaríska herliðið af hólmi, því að til þess sé hættan í Evrópu einfaldlega of lítil. Bailes segist ekki telja nauðsynlegt fyrir Íslendinga að hafa sýnilegar varnir, enda hafi varnirnar hingað til að miklu leyti verið táknrænar. Það sé Íslendingum hins vegar nauðsynlegt að koma þeim skilaboðum til alþjóðasamfélagsins að bandamenn landsins standi fullkomlega við bakið á því.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×