Erlent

Engin niðustaða enn

Rússar og Kínverjar neita að samþykkja tillögu Bandaríkjamanna, Frakka og Breta um að beita Írana refsiaðgerðum vegna kjarnorkuáætlana þeirra. Öryggisráðið mun ræða málið í dag.

Fulltrúar þeirra ríkja í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna sem hafa þar neitunarvald, Kína, Frakklands, Rússlands, Bandaríkjanna og Bretlands eru síður en svo sammála um hve langt skuli ganga til að fá Írana til að hætta við kjarnorkuáætlanir sínar. Öryggisráðið krefst þess að Íranar hætti allri auðgun úrans sem ríkin telja að sé liður í því að smíða kjarnorkusprengjur. Íranar hafa aukið framleiðslu á eldflaugum sem geta borið kjarnaodda en þeir fullyrða þó að áhugi þeirra á auðgun úrans sé aðeins í friðsamlegum tilgangi. Á meðan Bretar, Frakkar og Bandaríkjamenn vilja ólmir beita þá refsiaðgerðum, segjast Kínverjar og Rússar andvígur slíkum aðgerðum, því þær skili aldrei góðum árangri. Sendiherra Bandaríkjanna hjá ráðinu, John Bolton sagði ríkisstjórn Bush vilja bregðast fljótt og örugglega við og hafa sagt útilokað að Íranar fái að framleiða úran. Láti þeir verða af því geti vel verið að Bandaríkjamenn ráðist á landið. Bolton sagði þó betra að hafa Öryggisráðið með, komi til þess. Fullskipað Öryggisráðið, alls fulltrúar 15 ríkja, ræðir málið í dag og á morgun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×