Erlent

Fangar enn beittir ofbeldi í Abu Ghraib fangelsinu

Enn einu sinni hafa myndir af hrottafengnum misþyrmingum fanga Bandaríkjamanna í Abu Ghraib fangelsinu í Írak komið fyrir augu almennings. Þær eru frá því um líkt leyti og myndirnar sem ollu hneysklun og viðbjóði um allan heim vorið 2004.

Nokkrir dagar eru síðan myndband var birt af misþyrmingum breskra hermanna á unglingum í Basra í Írak og í dag sýndi ástralska sjónvarpstöðin SBS myndir af ámóta viðurstyggð. Þær eru sagðar teknar í Abu Ghraib-fangelsinu illræmda síðla árs 2003 og er talið að sama sveit fangavarða og tók myndirnar sem vöktu svo mikla reiði vorið 2004 sé þarna að verki.

Í það minnsta bregður fyrir á nýju myndunum parinu Lynndie England og Charles Graner, sem bæði hafa hlotið fangelsisdóma fyrir ofbeldið sem þau sýndu íröskum föngum í haldi Bandaríkjastjórnar. Myndirnar sem birtar voru í dag eru jafnvel enn meira hrollvekjandi en þær sem áður hafa sést. Þar gefur að líta fanga með alvarlega áverka sem virðast vera eftir mjög gróft ofbeldi.

Á sumum myndunum má jafnvel sjá lík fólks sem talið er hafa látist í varðhaldinu. Á einu af myndböndunum sést hvar maður sem sagður er geðsjúkur ber höfði sínu ítrekað í stálhurð en fram kom á áströlsku stöðinni að fangaverðirnir hefðu skemmt sér við að niðurlægja hann. Formælandi bandaríska utanríkisráðuneytisins gagnrýndi stöðina í dag fyrir að birta myndirnar þar sem lífi hermanna gæti þar með verið stefnt í hættu.

Hann bætti því við að eftir að hneykslið í Abu Ghraib kom upp á sínum tíma hefði verið hart verið tekið á sökudólgunum og ekkert benti til að ofbeldið hefði haldið áfram. Myndirnar hafa þegar verið sýndar á arabískum sjónvarpsstöðum og er næsta öruggt að ólgan í Mið-Austurlöndum sem var ærin fyrir mun magnast enn frekar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×