Erlent

Vonskuveður víða í Evrópu

Snjóað hefur í Japan eins og þessar kimono-klæddu konur fengu að kynnast.
Snjóað hefur í Japan eins og þessar kimono-klæddu konur fengu að kynnast. MYND/AP

Vonskuveður hefur geisað í Evrópu um helgina. Í Danmörku var Stórabeltisbrúnni lokað, í Noregi fuku hús um koll og í Úkraínu hefur tylft manna frosið í hel.

Óhætt er að segja að kuldaboli sýni tennurnar um þessar mundir. Í gær mældist tæplega sjötíu gráðu frost í Síberíu en í Moskvu var talsvert hlýrra, aðeins mínus 32 gráður, en engu að síður hafa fimm manns króknað þar í hel. Sömu sögu er að segja frá Úkraínu þar sem tólf manns hafa látist og Lettlandi þar sem sex dóu úr kulda í gær. Þar hefur hitastigið ekki verið lægra í heila öld.

Fárviðri geisaði í Norður-Noregi um helgina og fór meðal annars rafmagnið af Tromsö í dágóða stund vegna snjóþyngsla á raflínum. Í Helgeland fuku hús eins og eldspýtur í ofsaveðri og þar áttu vegfarendur fótum fjör að launa eins og sjá má. Ástandið í Danmörku var ekki mikið skárra. Þegar grýlukerti og íshröngl tók að hrynja úr burðarvírum Stórabeltisbrúarinnar, sem tengir Fjón og Sjáland, var ákveðið að loka fyrir umferð og því mynduðust margra kílómetra langar bílaraðir beggja vegna brúarinnar. Tók allt að tuttugu klukkustundir að losa fólk úr bifreiðum sínum. Flugumferð um Kastrup-flugvöll lá nánast niðri frá því í fyrrakvöld og langt fram eftir gærdeginum en þar sem veður hefur gengið mikið niður eru samgöngur um flugvöllinn komnar í samt lag. Sjálft óveðrið virðist sem sagt að baki en veðurfræðingar gera ráð fyrir að frosthörkur muni jafnvel færast í vöxt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×