Innlent

Vonar að tillagan verði samþykkt

Ólafur F. Magnússon ber upp tillögu um verndun Þjórsárvera í borgarstjórn á morgun og binda F-lista menn miklar vonir við að hún verði samþykkt en það yrði þá í fyrsta skipti sem borgarstjórn leggst gegn áformum ríkisvaldsins og Landsvirkjunar í virkjanamálum.

 

 



Tillaga Ólafs F. Magnússonar til verndar Þjórsárverum. Eins og áður segir þá væntir tillöguflytjandi þess að tillögur hans til verndar Þjórsárverum fái víðtækan stuðning í borgarstjórn Reykjavíkur. Fyrir liggur sterk andstaða heimamanna við fyrirhugaðar virkjanaframkvæmdir í Þjórsárverum og stuðningur almennings við stækkun friðlandsins í Þjórsárverum.

Þýðingarmikið er að borgarstjórn leggist gegn frekari aðför ríkisstjórnar og Landsvirkjunar að helstu náttúruperlum landsins og standi sig betur í þeim efnum nú en í framgöngu sinni vegna áður fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar og þess umhverfisslyss sem nú á sér stað við Kárahnjúka.

Tillöguflytjandi minnir á að í október árið 1999 lagði hann fram tillögu í borgarstjórn (sem þáverandi borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins) um að krafist yrði lögformlegs mats á umhverfisáhrifum Fljótsdalsvirkjunar þannig að koma mætti í veg fyrir gerð uppistöðilóns á Eyjabökkum. Sú tillaga hlaut ekki stuðning neins annars kjörins aðalborgarfulltrúa en tveir varaborgarfulltrúar R-lista studdu tillöguna og einn varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks sat hjá. Sigur vannst hins vegar í Eyjabakkamálinu á öðrum vettvangi þar sem söfnun Umhverfisvina á 45.386 undirskriftum til stuðnings kröfunni um lögformlegt umhverfismat Fljótsdalsvirkjunar vóg þyngst.

Tillöguflytjandi minnir einnig á að hann flutti alls fimm tillögur í borgarstjórn, á tímabilinu 2001-2003, sem beindust gegn þátttöku Reykvíkurborgar í Kárahnjúkavirkjun og ábyrgð Reykvíkinga á þeirri framkvæmd. Þegar borgarstjórn samþykkti ábyrgðir Reykvíkinga á Kárahnjúkavirkjun lögðust fimm borgarfulltrúar gegn þátttöku borgarinnar í framkvæmdinni. Andstaðan við Kárahnjúkavirkjun var þannig meiri innan borgarstjórnar en andstaðan við áður fyrirhugaða Fljótsdalsvirkjun. Hins vegar tókst ekki að fylkja liði gegn Kárahnjúkavirkjun úti í samfélaginu á sama hátt og gegn Fljótsdalsvirkjun og uppistöðulóni á Eyjabökkum.

Nú er hins vegar lag fyrir borgarstjórn Reykjavíkur að leggja fram sinn skerf til verndar Þjórsárverum og gegn frekari náttúruspjöllum í grennd við verin. Sterk andstaða heimamanna og almennings í landinu gegn fyrirhuguðum virkjanaframkvæmdum gerir það mögulegt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×