Innlent

Allt að átta króna munur á bensínlítranum

Allt að átta króna verðmunur var á bensínlítranum á höfuðborgarsvæðinu í morgun, eftir að stóru olíufélögin þrjú hækkuðu verð á bensínlítranum um eina krónu og 50 aura í gær.

Öll skýrðu þessa hækkun með hækkun á heimsmarkaðsverði en olíutonnið hefur hækkað úr 490 dollurum í Rotterdam fyrir jól upp í 550 dollara núna. Bensínlítrinn á stöðvum með fullri þjónustu kostar nú rétt tæpar 115 krónur, en 109 krónur og 50 til 80 aura í sjálfsafgreiðslu.

Hjá Atlantsolíu er lítrinn á tæpar 107 krónur og að vanda tíu aurum ódýarari hjá Orkunni, dótturfélagi Skeljungs, þannig að munurinn á dýrasta og ódýrasta bensínlítranum er um það bil átta krónur, sem er með því mesta sem þekkst hefur.

Munurinn kann að minnka síðar í dag þegar Atlantsolía endurskoðar sitt verð en ef það félag hækkar verðið eitthvað mun Orkan að líkindum hækka í humáttina. Þá er lítrinn af díselolíu kominn upp í tæpar 108 krónur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×