Innlent

Tilkynningum um kynferðisafbrot fækkaði

MYND/Páll

Færri tilkynningar um kynferðisafbrot bárust lögreglu á árinu 2004 samanborið við árin á undan. Fíkniefnabrotum fjölgaði hins vegar um 64% á sama tíma.

Þetta kemur fram í nýútkominni skýrslu Ríkislögreglustjóra um afbrot á árinu 2004. En árið 2004 voru 277 kynferðisafbrot skráð hjá lögreglu en það er 7% fækkun miðað við meðal fjölda brota á árunum 2000 til 2003. En til samanburðar má sjá að árið 2003 voru 359 kynferðsafbrot skráð hjá lögreglu og er fækkun því tæplega 23% á milli ársins 2003 og 2004. En tilkynnt var um 51 nauðgun á árinu 2004.

Í skýrslunni kemur einnig fram að hegningarlagabrotum fækkaði um tæplega 11% árið 2004 samanborið við árið 2001. En það eru öll þau brot er varða hegningarlög og eru refsiverð. Auðgunarbrotum fækkaði um 8% árið 2004 borið saman við meðalfjölda brota á árunum 2000 til 2003. Líkamsárásum fækkaði um 11% á sama tíma og 15% færri eignarspjöll voru tilkynnt á þessum tíma.

Í raun og veru fækkaði öllum brotum nema fíkniefnabrotum. Árið 2004 voru fíkniefnabrot rúmlega 64% fleiri en meðalfjöldi á árunum 2000 til 2003. Mestu munar þar um fjölgun brota vegna vörslu eða neyslu fíkniefna 79% fleiri slík brot voru árið 2004 en árið 2003. Árið 2004 lagði lögreglan hald á tæplega 37 kíló af hassi samanborið við 55 kíló árið á undan. Lögreglan lagði þó hald á meira af kókaní og amfetamíni árið 2004 en árið á undan en lagt var hald á 16 kíló af amfetamíni í fyrra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×