Innlent

17 brennur á höfuðborgarsvæðinu um áramótin

MYND/Heiða

Allt frá því í byrjun 19. aldar hafa áramótabrennur verið órjúfanleg hefð hjá mörgum. Þar er gamla árið kvatt með tilheyrandi söng og dansi. Um þessi áramót verða haldnar 17 brennur á höfuðborgarsvæðinu og hefjast þær allar kl. 20.30.

Fram að 19. öld þóttu timbur og annar eldiviður of dýrmætur til að honum mætti sóa í brennur. Á vísindavef Háskóla Íslands segir að fyrsta dæmið um brennu um áramót hér á landi sé frá árinu 1791 þegar skólapiltar úr Hólavallaskóla í Reykjavík söfnuðu saman tunnum og öðru timburrusli og kveiktu í á hæð sem þeir kölluðu Vulcan og er hæðin sem um ræðir sennilega Landakotshæð.

Rúmum 50 árum síðar virðast áramótabrennur vera orðnar nokkuð algengar. Til að byrja með voru brennurnar ekki mjög hátíðlegar þar sem þær einkenndust af fylleríi og ólátum. Á þessum tíma var líka farið að dansa álfadans kringum brennurnar.

Um þessi áramót verða haldnar 17 brennur á höfuðborgarsvæðinu og hefjast þær allar kl. 20.30. Í Reykjavík verða fjórar stórar brennur, við Ægissíðuna, á Geirsnefi, í Gufunesi og við Rauðavatn. Þá eru sjö minni brennur í Reykjavík, við Suðurhlíðar neðan við Fossvogskirkjugarð, við Suðurfell, við Leirubakka, Klébergi á Kjalarnesi, í Skerjafirði gegnt Skildinganesi, vestan Laugarásvegar á móts við Valbjarnarvöll og við Úlfarsfell en sú brenna hefst kl. 15.

Þá eru brennur á Valhúsahæð við Seltjarnarnes, við Tröð á Álftanesi, við Vallartorg í Hafnarfirði, við Arnarnesvog í Garðabæ, í Kópavogsdal og við Varmá í Mosfellsbæ.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×