Innlent

Borgarstjóri sakar HÍ um feluleik

MYND/Vilhelm

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarstjóri gagnrýnir ummæli Páls Hreinssonar, formanns stjórnar Happdrættis Háskóla Íslands, um að happdrættið sé ekki réttur viðmælandi borgaryfirvalda um rekstur spilasalar í Mjódd. Feluleikur, segir borgarstjóri.

Undirskriftarlistar hafa legið frammi í verslunum í Mjódd þar sem fyrirhuguðum spilasal er mótmælt. Íbúasamtök Breiðholts gagnrýndu fyrir nokkru að Happdrætti háskóla Íslands skuli standa á bak við rekstur á spilavíti í hverfinu.

Páll Hreinsson, lagaprófessor og formaður stjórnar happdrættisins, hefur sagt að það sé ekki réttur viðmælandi borgaryfirvalda á rekstri spilasalarins.

Í gærkvöldi sendi Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarstjóri frá sér yfirlýsingu sem bar yfirskriftina Feluleikur Háskóla Íslands. Þar segir Vilhjálmur að lögum samkvæmt séu aðeins tveir lögaðilar sem hafa einkaleyfi til að reka peningahappdrætti og er annar þeirra happdrætti Háskóla Íslands. Fyrirtækið Háspenna sem hyggst setja upp spilasalinn í Mjódd rekur spilakassa á vegum Happdrættis Háskólans.

Síðan segir orðrétt: „Þótt Happdrætti Háskólans sé ekki lögformlegur eigandi að því spilavíti sem til stendur að starfrækja í Mjóddinni er hins vegar ljóst að Happdrættið og Háskólinn bera fulla ábyrgð á hvar þessir spilakassar eru niðurkomnir."

Vilhjálmur er nú staddur í Amsterdam en Jón Kristinn Snæhólm, aðstoðarmaður hans, sagði í samtali við fréttastofu í morgun að borgarstjóri væri búinn að boða fund með eigendum Háspennu, stjórnar Happdrættis Háskóla Íslands og rektor Háskólans þar sem fyrirkomulag rekstur spilavítisins verði rætt.

Hann sagði borgarstjóra ætla að beita sér fyrir því að hagsmunir borgarbúa yrðu hafðir að leiðarljósi enda hafi borgaryfirvöld það í hendi sér að skipuleggja hvar starfsemi af þessu tagi fari fram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×