Innlent

Rússarnir þurfa ekkert leyfi

Alþjóðamál Landhelgisgæslunni hafa engar upplýsingar borist varðandi fyrirhugaða heræfingu Rússa innan tvö hundruð mílna íslensku efnahagslögsögunnar, samkvæmt Ásgrími L. Ásgrímssyni yfirmanni vaktstöðvar siglinga hjá gæslunni. Gæslunni er því ekki kunnugt um hvenær æfingarnar eiga að hefjast.

Hann segir Rússana ekki þurfa að hafa samband vegna æfingarinnar því tvö hundruð mílna efnahagslögsagan sé opið hafsvæði, en öðru máli gegnir um tólf mílna landhelgina. "Við munum að sjálfsögðu fylgjast vel með þegar við fréttum af komu þeirra," segir Ásgrímur.

Fyrir nokkrum árum héldu Rússarnir svipaða heræfingu hér við land. Til þeirra sást úr landi þar sem þeir héldu sig rétt utan við tólf mílna landhelgina og áhyggjur vöknuðu á meðal manna um að mögulega væri eitt kjarnorkudrifnu skipanna bilað.

"Okkur er illa við allar komur herskipa hingað til lands, hvort sem um kurteisisheimsóknir er að ræða í reykvískar hafnir eða heræfingar af þessu tagi," segir Stefán Pálsson, formaður miðnefndar herstöðvarandstæðinga. "Í fyrsta lagi teljum við að þau hafi ekkert erindi hingað og verið sé að bjóða hættunni heim, það geta alltaf orðið slys í svona æfingum og ekki er skárra ástandið þegar rússneski flotinn sem hingað er að koma er í svona og svona ástandi."

Stefán fordæmir íslensk stjórnvöld fyrir að hafa ekki friðlýst tvö hundruð mílna efnahagslögsöguna fyrir kjarnaorkuvopnum. Tillögur þess efnis hafi verið felldar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×