Innlent

Vilja ókeypis getnaðarvarnir

Ungmennaráð Hafnarfjarðar Kynntu hugmyndir sínar og voru ánægð með viðtökur bæjarstjórnar.
Ungmennaráð Hafnarfjarðar Kynntu hugmyndir sínar og voru ánægð með viðtökur bæjarstjórnar.

Ungmennaráð Hafnarfjarðar fundaði með bæjar­stjórn Hafnarfjarðar í vikunni og lagði ungt fólk í bænum þar fram tillögur sínar um það sem betur mætti fara. Tillögurnar eru afrakstur ungmennaþings sem haldið var í lok apríl.

Meðal þess sem ungmennin lögðu til voru bættar samgöngur fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur milli Hafnarfjarðar, Garðabæjar og Kópavogs. Leggja þau til að Hafnarfjarðarbær leiti eftir samstarfi við nágranna sína um þau mál. Þá vilja ungmennin efla sérkennslu og að íþrótta­iðkun verði metin sem valfag í grunnskólum. Einnig leggur ungmennaráðið til að boðið verði upp á fríar eða ódýrar getnaðarvarnir, að komið verði upp kvikmyndahúsi í bænum og að aðstaða í Suðurbæjarlaug verði bætt fyrir sundlaugargesti.

"Við erum mjög ánægð með fundinn og þær viðtökur sem við fengum hjá bæjarstjórninni. Við vonum að hugmyndir okkar verði teknar til alvarlegrar skoðunar. Það er mikið ánægjuefni að bæjarstjórn skuli bera traust til ungs fólks," segir Axel Guðmundsson, eitt ungmennanna sem sátu fundinn.

Tillögur ungmennaráðsins voru teknar fyrir á fundi bæjarráðs Hafnarfjarðar í gær og þeim vísað til nefnda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×