Erlent

Íranar gera tilraunir með ný flugskeyti

Íransher gerði í gær tilraunir með nýja gerð af flugskeytum sem talið er að hægt verði að skjóta á skotmörk í Ísrael og herstöðvar Bandaríkjamanna við Persaflóann. Fregnir þess efnis valda nú Bandaríkjamönnum áhyggjum í ljósi kjarnorkudeilunnar við Írana sem enn er í hnút.

Nafn flugskeytategundarinnar gæti útlagst Sigur á Íslensku. Að sögn Ísraelshers er ekki hægt að nema flugskeyti af þessari gerð á ratsjá og hægt er að beina því að mörgum skotmörkum í einu þar sem það geti borið nokkra sprengihleðslur eða kjarnaodda eftir atvikum. Herinn segir flugskeyti hafa verið skotið á loft í gær í tilraunaskyni og það hafi heppnast mjög vel.

Fréttir af þessu hafa hringt viðvörunarbjöllum hjá yfirvöldum í Bandaríkjunum og Ísrael enda er kjarnorkudeilan við Írana í hnút þessa dagana. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hefur gaf stjórnvöldum í Teheran í vikunni þrjátíu daga frest til að hætta auðgun úrans og veita eftirlitsmönnum Alþjóða kjarnorkumálastofnunarinnar alla þá aðstoð sem þeir óski eftir. Bandaríkjamenn hafa haldið því fram að Íranar vilji þróa kjarnorkuvopn en því hafna þeir og segja kjarnorkutæknina aðeins verða notaða í friðsamlegum tilgangi.

Ekki hefur fengist upp gefið hversu langt flugskeytin draga en fjölmiðlar í Íran telja hægt að skjóta þeim á Ísrael og herstöðvar Bandaríkjamanna í Írak og annars staðar við Persaflóann.

Íranar hófu að þróa vopn á meðan á stríði þeirra við Íraka stóð á árunum 1980 til 1988 en þá höfðu Bandaríkjamenn lagt bann á sölu vopna til þeirra. Frá árinu 1992 hafa Íranar framleitt eigin skriðdreka, herflutningabíla, flugskeyti og orustuvélar.

Umfangsmilar æfingar Íranshers eru nú að hefjast í Arabíu- og Persaflóa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×