Erlent

Rice segir mistök hafa verið gerð í Írak

Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir ýmis mistök hafa verið gerð í tengslum við innrásina í Írak og eftirmála hennar en í grunninn hafi verið rétt að koma Saddam Hússein, fyrrverandi forseta, frá völdum. Ráðherrann er staddur í heimsókn á Bretlandi, þar sem mótmælendur hafa fylgt henni eftir við hvert fótmál.

Mótmælendur hafa verið nokkuð háværir meðan á tveggja daga heimsókn Rice, utanríkisráðherra, til Norður-Englands hefur staðið. Hún hefur þurft að svara fyrir aðgerðir Bandaríkjamanna í Írak, Guantanamo-fangelsið á Kúbu og deilurnar fyrir botni Miðjaðarhafs.

Rice ávarpaði gesti í ráðhúsinu í Blackburn í gær um leið og mótmælendur fyrir utan létu öllum illum látum. Ráðherrann sagði mótmæli mikilvæg í lýðræðiríki. Rice viðurkenndi að Bandaríkjastjórn hefði gert mistök í Írak.

Í dag sagði Rice hins vegar að þessi ummæli hefðu verið rangtúlkuð og hún hefði verið að tala í óeiginlegri merkingu.

Jack Straw, utanríkisráðherra Bretlands, sagði á blaðamannafundinum í gær að ljóst væri að Bretar vildu að málefni Guantanamo fangelsins yrðu leyst en sagði þó að bresk stjórnvöld gerðu sér grein fyrir að tilvist þess væri afsprengi hryðjuverkaárásanna á Bandaríkin 2001.

Rice átti í gær fund með forystumönnum múslima í Blackburn en þeir eru 20% íbúa þar í borg. Ráðgert var að Rice myndi heimsækja mosku í borginni í gær en þeirri heimsókn var aflýst þar sem óttast var að mótmælendur myndu láta ófriðlega þar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×