Innlent

Ferjuhöfn í Bakkafjöru 2010

Sturla Böðvarsson samgönguráðherra hefur komist að þeirri niðurstöðu að ferjulægi í Bakkafjöru sé besta lausnin í bættum samgöngum milli lands og Vestmannaeyja.  Sturla kynnti tillögur sínar á ríkisstjórnarfundi í morgun og miðað er við að höfnin verði tekin í notkun árið 2010 og að þá verði hægt að sigla milli lands og eyja á hálftíma.

Samgönguráðherra leggur til að lokið verði við nauðsynlegar rannsóknir og undirbúning svo framkvæmdir geti hafist svo fljótt sem auðið er. Tillögur sínar byggir Sturla á lokaskýrslu starfshóps sem hann skipaði til að fjalla um samgöngur við Vestmannaeyjar í maí 2004. Starfshópurinn komst að þeirri niðurstöðu að ferjulægi í Bakkafjöru væri fýsilegur kostur miðað við þær rannsóknir sem unnar hafa verið og að ekki væri réttlætanlegt að leggjast í frekari rannsóknir varðandi gerð jarðgangna milli lands og eyja. Sturla segir því að ekkert hafi verið því til fyrirstöðu að taka ákvörðun í málinu.

Ástand í samgöngumálum milli lands og Vestmannaeyja hefur verið óásættanlegt að mati margra og hópur þjónustuaðila og áhugamanna um ferðaþjónustu í Vestmannaeyjum talar um neyðarástand í samgöngumálum og óskar eftir nýju gangmiklu skipi svo fljótt sem auðið er og að flug með 30-50 sæta flugvélum verði komið á milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja þegar í stað.

Sturla segir að þangað til verði hugað að því hvernig best sé hægt að tryggja hámarks nýtingu á núverandi samönguleiðum með þarfir Vestmannaeyjinga og ferðamanna að leiðarljósi. Í því sambandi mun samögnuráðherra eiga frekari viðræður við fulltrúa bæjarstjórnar Vestmannaeyja og fara nánar yfir stöðu þeirra mála.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×