Erlent

Valdarán í Taílandi

Thaksin Shinawatra, forsætisráðherra Taílands, var steypt af stóli í herforingjabyltingu í dag. Talsmenn hersins segja valdaránið hafa verið nauðsynlegt vegna spillingar ríkisstjórnarinnar og lýðræði verði komið aftur á hið fyrsta.

Málsatvik eru enn afar óljós en svo virðist að síðdegis, eða um miðnætti að staðartíma, hafi skriðdrekar umkringt stjórnarráðið í Bangkok og hermenn ráðist þar til inngöngu. Í kjölfarið lýsti Thaksin Shinawatra forsætisráðherra yfir neyðarástandi í landinu en hann er staddur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York og sagðist ennþá vera við völd. Nú skömmu fyrir fréttir lýstu leiðtogar klofningshóps úr hernum því hins vegar yfir að herlög giltu í landinu, ríkisstjórnin hefði verið leyst frá völdum og stjórnarskráin felld úr gildi. Þeir segja valdaránið nauðsynlegt vegna langvarandi spillingar ríkisstjórnarinnar og lýðræði yrði aftur komið á eins fljótt og frekast væri kostur. Lengi hefur verið orðrómur um að herinn hygðist láta til skarar skríða gegn ríkisstjórninni enda hefur Thaksin verið vægast sagt umdeildur. Hann leysti upp þingið í febrúar og flokkur hans sigraði svo í kosningum í apríl en þær voru síðar dæmdar ólöglegar og því átti að kjósa á ný í haust. Enn virðist ekki hafa komið til blóðsúthellinga í valdaráninu en hvorki liggur fyrir hvort herforingjarnir hafi öll völd í hendi sér né hvenær Thaksin snýr aftur heim. Fimmtán ár eru frá því að herinn hafði síðast bein afskipti af stjórnmálum Taílands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×