Innlent

Þrír fluttir á slysadeild eftir bruna á Rauðarárstíg

Þrír voru fluttir á sjúkrahús með reykeitrun eftir bruna í þriggja hæða húsi við Rauðarárstíg í Reykjavík og er íbúðin þar sem eldurinn kom upp talin ónýt. Mikill erill hefur verið hjá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins síðastliðinn hálfan sólarhring.

Slökkvilið fékk tilkynningu um eld í íbúð við Rauðarárstíg 40 um klukkan sjö í morgun og þegar komið var á vettvang logaði mikill eldur í íbúðinni. Allt tiltækt lið slökkviliðsins, þrír dælubílar og körfubíll, börðust við eldinn sem talið er að hafi kviknað í stofu íbúðarinnar. Mikill eldur og mikill hiti var á staðnum að sögn slökkviliðs. Húsráðanda í íbúðinni og par úr nærliggjandi íbúð var flutt á slysadeild vegna reykeitrunar en hún mun þó hafa verið væg. Slökkvistarfi lauk að mestu rúmlega átta í morgun og var þá íbúðin þar sem eldurinn kom upp gjörónýt. Eldsupptök eru ókunn.

Slökkviliðsmenn á næturvakt höfðu í nógu að snúast því um sexleytið í gær var slökkvilið kallað að húsi úti á Reykjavíkurflugvelli sem notað hefur verið sem geymsla sem stóð í ljósum logum. Slökkvistarf þar tók um tvo og hálfan tíma og húsið gjörónýtt. Grunur leikur á að kveikt hafi verið í því.

Þá var slökkviliðið kallað að Álftanessskóla í gækvöld um tíu leyti. þar sem einhver hafði kastað' molotov-kokkteil í húsið og logaði þar í klæðningu. Eldurinn náði þó ekki að breiðast út og tók slökkvistarf skamman tíma.

Slökkviliðið var svo kallað að veitingstaðnum Skólabrú í miðbæ Reykjavíkur um hálfellefuleytið í gær eftir að eldur kom upp í kælivélum í kjallara. Þegar slökkvilið kom á vettvang höfðu starfsmenn rýmt veitingastaðinn en fjórir starfsmannana voru fluttir á slysadeild með snert af reykeitrun.

Slökkvilið var einnig kallað út vegna nokkurra minni elda í blaðagámum og því er óhætt að segja nóttin í nótt hafi verið annasöm.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×