Erlent

Frakkar fokreiðir

Frumvarpið umdeilda snýst um CPE-samninginn: contrat première embauche, sem er ætlað að auðvelda ungu fólki að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaðnum - og að auðvelda atvinnurekendum að reka unga starfsmenn...
Frumvarpið umdeilda snýst um CPE-samninginn: contrat première embauche, sem er ætlað að auðvelda ungu fólki að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaðnum - og að auðvelda atvinnurekendum að reka unga starfsmenn... MYND/AP

Frakkland logar enn eina ferðina í uppþotum. Tvö hundruð og fimmtíu þúsund manns mótmæltu svokölluðu CPE-frumvarpi víða um landið í gær og hafa enn frekari aðgerðir verið boðaðar á morgun.

Yfirvöld telja að allt að tvöhundruð og fimmtíu þúsund manns hafi tekið þátt í mótmælunum sem fóru víðast hvar friðsamlega fram. Fjölmennasta kröfugangan var farin í París en þar sló í brýnu á milli lögreglu og fámenns hóps óeirðaseggja sem klauf sig frá þorra göngumanna. Þeir köstuðu steinum, flöskum, borðum og stólum af nærliggjandi kaffihúsum að lögreglu sem svaraði að bragði með því að úða á þá táragasi og skjóta að þeim gúmmíkúlum. Þrjú hundruð manns voru handteknir.

Mótmælin, sem staðið hafa yfir undanfarna daga, beinast gegn nýjum lögum ríkisstjórnarinnar sem kveða á um vinnuréttindi ungs fólks. Þau heimila vinnuveitendum að segja starfsmönnum sínum sem eru yngri en 26 ára og hafa minna en tveggja ára starfsreynslu upp störfum án útskýringa. Lögunum er ætlað að auka hreyfanleika á vinnumarkaði en andstæðingar laganna segja aftur á móti að vinnuveitendur muni nota sér þetta til að næla sér í ódýrt vinnuafl og að lögin muni gera ungu fólki erfiðara um vik að fá langtímastörf. Von er á enn frekari mótmælum á morgun og búast yfirvöld við hinu versta.

Jacques Chirac Frakklandsforseti hvatti andófsmenn til að sýna stillingu og sagði að stjórnvöld væru til viðræðu um efni frumvarpsins, án þess þó að segja að lögunum yrði breytt eða þau dregin til baka.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×