Innlent

Stuðningur við aðild að ESB ekki meiri síðan 2002

Stuðningur við aðild Íslands að Evrópusambandinu hefur ekki verið meiri frá því í febrúar 2002. 58% aðspurðra eru hlynnt því að hefja aðildarviðræður.

Almenn niðurstaða könnunar Samtaka iðnaðarins er að Íslendingar virðast vera að verða jákvæðari í garð Evrópusambandsaðildar. 46 prósent aðspurðra í eru nú hlynntir aðild Íslands að Evrópusambandinu en 58 prósent hlynntir því að Íslendingar hefji aðildarviðræður.

Samtök iðnaðarins hafa lagt sömu spurningarnar fyrir úrtak kjósenda í rúm fimm ár og hafa því marktækan samanburð. Stuðningur hefur ekki verið meiri við aðild síðan í byrjun árs 2002 og segir Jón Steindór Valdimarsson, aðstoðarframkvæmdastjóri samtakanna að slíkt haldist í hendur við bágt efnahagsástand undanfarinna mánaða, þá hugnist fólki frekar valkostir eins og aðild að ESB og evrunni. Þetta sjáist best á því að nú telji 47 prósent aðspurðra að upptaka evrunnar muni hafa jákvæð áhrif á eigin efnahag en aðeins 40 prósent telji hana muni hafa neikvæð áhrif. Þetta er í fyrsta skipti síðan í febrúar 2002 sem fleiri eru jákvæðir í garð evrunnar en hinir sem líst ekki á hana.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir segir óneitanlega vera byr í segl Samfylkingarinnar, sem er eini stjórnmálaflokkanna sem hefur haft aðild að ESB á stefnuskránni. Hún segir heilmikla hreyfingu í þessum málaflokki og skoðanabreytingar hjá almenningi og ýmsum félagasamtökum en þær séu ekki að skila sér inn í forystu stjórnmálaflokkanna. Hún hefur hins vegar trú á því að þetta eigi eftir að skila sér inn hjá hinum flokkunum í fyllingu tímans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×