Innlent

Tvöföldun Reykjanesbrautarinnar hefur skilað sér

MYND/Vilhelm Gunnarsson

Enginn hefur látist í umferðarslysi á Reykjanesbraut frá því hluti hennar var tvöföldaður og minna er um hraðakstur. Ökumenn haga sér öðruvísi í umferðinni á Reykjanesbrautinni eftir að hún var tvöfölduð fyrir tæpum tveimur árum síðan. Þetta segir Jóhannes Jensson, aðstoðaryfirlögregluþjónn í Keflavík.

Lögreglan í Reykjanesbæ, Hafnarfirði og á Keflavíkurflugvelli skipta með sér umferðareftirliti á Reykjanesbrautinni. Hraðaksturskærum hefur fækkað jafnt og þétt á síðustu árum og ekki hvað síst eftir að Reykjanesbrautin var tvöfölduð. Jóhannes Jensson, aðstoðaryfirlögregluþjónn í Keflavík, segir að svo virðist sem tvöföldunin hafi jákvæð áhrif á ökumenn, þeir séu rólegri í umferðinni og minna sé um framúrakstur.

Jóhannes segir einnig að búið sé að breyta og bæta nánasta umhverfi vegsins, með öryggi ökumanna í huga. Ökumenn hafi meira svigrúm til að koma í veg fyrir slys í tæka tíð og lendi þeir utanvega þá séu minni líkur á að þeir slasist alvarlega, þar sem búið sé að slétta breiða kafla beggja megin vegarins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×