Innlent

Konan sveik út úr tryggingum með hjálp sonar síns, tengdadóttur og 20 annarra

MYND/Vilhelm Gunnarsson

Konan sem er sökuð um að hafa svikið 75 milljónir út úr Tryggingastofnun er á fimmtugsaldri. Hún hafði unnið sem þjónustufulltrúi í Þjónustumiðstöð stofnunarinnar í yfir 20 ár en ekki sem gjaldkeri eins og áður hafi verið sagt. Sonur konunnar og tengdadóttir sitja einnig í gæsluvarðhaldi. Alls tengjast um 20 manns málinu sem gæti verið eitt stærsta tryggingasvindl Íslandssögunnar.

Fjórði aðilinn sem úrskurðaður var í gæsluvarðhald er 29 ára karlmaður. Hans hlutverk var að taka við peningum frá konunni hjá Tryggingstofnun. Samkvæmt heimildum NFS hafa nokkrir fjórmenninganna játað sinn þátt í málinu.

Jón H.B. Snorrasson sagði í fréttum NFS í kvöld að konan, sem sökuð er um fjársvikin, hefði gegnt trúnaðarstarfi hjá Tryggingastofnun, fjársvikin næmu 75 milljónum króna.

Starfið sem konan gegndi var í þjónustumiðstöð stofnunarinnar, hún var í raun aðeins gjaldkeri, ekki yfirmaður eða deildarstjóri. Enda var hún ekki ein að verki. Samkvæmt heimildum NFS eru, fyrir utan son konunnar og tengdadóttur, um 20 manns viðriðnir málið; aðilar sem konan fékk til að opna reikning og taka við peningunum gegn ákveðinni prósentu eða þóknun.

Fjársvik konunnar ná aftur til ársins 2001. Þau komust hins vegar ekki upp fyrr en nú, fimm árum síðar, þegar konan hætti störfum hjá Tryggingastofnun eftir 22 ára starf.

Konan og sonur hennar búa í félagslegri íbúð í Breiðholtinu og sögðu nágrannar þeirra sem NFS ræddi við að þessar fréttir kæmu ekki á óvart. Gestagangur og drykkjuskapur hjá konunni hefði valdið ónæði í blokkinni síðustu vikur og mánuði. Þá hefðu rándýr húsgögn og mublur sem konan bar inn vakið athygli fólksins í blokkinni.

Gæsluvarðhaldsúrskurðurinn yfir fjórmenningunum rennur út þann 7. júlí.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×