Lífið

Útrás Benna Hemm Hemm hafin

Benni Hemm Hemm Ætla að trylla þýskan lýð í ágúst en þá kemur út fyrsta plata sveitarinnar á vegum Sound of Handshake.
Benni Hemm Hemm Ætla að trylla þýskan lýð í ágúst en þá kemur út fyrsta plata sveitarinnar á vegum Sound of Handshake. MYND/Heiða

Fyrsta plata stórhljómsveitarinnar Benna Hemm Hemm kemur út í Evrópu þann 18. ágúst og í Bandaríkjunum 5. september en útgáfufyrirtækið Sound of Handshake sér um útgáfuna.

Platan sló eftirminnilega í gegn hér á landi og var meðal annars valin hljómplata ársins í flokknum "Ýmis tónlist" á Íslensku tónlistarverðlaununum árið 2005 en meðfram útgáfunni kemur sjötommu vínylplata með lögunum Beginning End og Beygja og beygja.

Benedikt H. Hermannsson, forsprakki sveitarinnar, var að vonum spenntur fyrir þessari útgáfu sem er á vegum Morr Music en Sound of Handshake er undirfyrirtæki þess í Berlín. "Thomas Morr, sem er með Morr Music, sá okkur á tónleikum hérna heima, kom sér í samband við okkur og vildi í kjölfarið gefa plötuna út," útskýrir Benedikt en sveitin spilar á nokkrum tónleikum í ágúst í Þýskalandi vegna útgáfunnar en hyggst síðan kynna hana enn frekar í vetur með ferð víðar um Evrópu. "Það gæti líka allt eins verið að við færum til Bandaríkjanna," bætir Benedikt við.

Í nógu er að snúast hjá sveitinni um þessar mundir því hún er að leggja lokahönd á nýja plötu sem kemur til með að innihalda þrettán lög. Upptökur hafa farið fram í Sundlauginni en ekki er kominn neinn útgáfudagur. "Við tökum að öllum líkindum ekki þátt í jólatónaflóðinu en kannski verður platan ágætis skiptimynt eftir hátíðirnar," segir Benedikt og hlær. - fgg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.