Innlent

Kíló af sykri í hverri viku

Meðalsykurneysla hvers Íslendings eru 52 kíló á ári. Að sögn dr. Önnu Sigríðar Ólafsdóttur, lektors við Kennaraháskóla, Íslands kemur meirihluti þess magns úr sykruðum gosdrykkjum.

Hún bendir á að í hálfum lítra af kóki er jafngildi 25 sykurmola.

En sykurinn leynist víða. Reyndar mætti hæglega rökstyðja það að sumt morgunkorn sé meira í ætt við sælgæti en hollan morgunverð.

Þriðjungur af þyngd morgunkornsins Honey nut Cheerios er sykur. Í 30 grömmum er jafngildi fimm og háfs sykurmola. Í Kellogs K eru þeir tveir og hálfur. Það má vissulega kaupa hreina jógúrt en til að gera mjólkurvörur neytendavænni eru þær meðal annars settar í jólaföt og sykri bætt út í. Hann jafngildir 4 sykurmolum í Engjaþykkni, 15 í hrísmjólk.

Sykurmagn í ávaxtasöfum er líka ríflegt. Hi-C inniheldur 9 sykurmola eins og Svali og Frissi fríski lumar á sjö molum.

Í morgunkornsstykki jafngildir sykurinnihaldið 5 molum. Prins póló súkkulaðið er ívið stærra svo þar fer fjöldinn upp í 7 og hálfan en hlutfall sykurs er það sama.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×