Hollywood hefur aldrei verið þekkt fyrir að ala af sér löng og farsæl hjónabönd því flest stjörnuhjónabönd enda í skilnaði fyrr en seinna.
Nokkur hjónabönd skera sig úr að því leyti að hafa ekki enst árið.
Margir segja að fyrsta árið í hjónabandi sé eins og að svífa á bleiku skýi en það á aldeilis ekki við um neðangreind pör. Hvort það sé í tísku í Hollywood er ekki gott að segja en stjörnunum virðist vera mikið í mun að gifta sig og eru svo enn fljótari að skilja.
Fjórir mánuðir
Þriggja ára krísan í hjónaböndum er vel þekkt og eru það mörg hjónabönd sem ganga í gengum erfiðleika þá en í Hollywood þekkist þessi sama krísa sem fjögurra mánaða krísan. Tvö þekkt hjónabönd hafa nú liðið undir lok eftir einungis fjögurra mánaða líftíma. Óvænt hjónaband leikkonunnar Renee Zellweger og kántrísöngvarans Kenny Chesney entist aðeins í fjóra mánuði en parið þekktist ekki lengi áður en það ákvað að ganga í það heilaga. Það er einmitt annað dæmi um hjónabönd í Hollywood, oftar en ekki er hugmyndin um hjónabandið ekki vandlega úthugsuð áður en hún er framkvæmd.
Seinni parið eru Kid Rock og Pamela Anderson sem sóttu um skilnað fyrir stuttu. Parið gifti sig á fjórum mismunandi stöðum í sumar en ástin kulnaði hjá þeim fjórum mánuðum síðar og hafa þau nú sótt um skilnað hvort frá öðru.
Óásættanlegur ágreiningur

Poppprinsessan Britney Spears á metið í stysta hjónabandi sögunnar. Hún giftist æskuvini sínum Jason Alexander í Las Vegas en segir sjálf að hún hafi verið í „annarlegu ástandi" það kvöld. Hjónabandið entist í 55 klukkutíma og Spears hefur því ekki beðið lengi eftir að láta ógilda hjónabandið eftr brúðkaupsnóttina. Ekki fylgdi sögunni hvað vininum Jason Alexander fannst um málið en hann fékk sína 15 mínutna frægð á meðan málið gekk yfir í fjölmiðlum.
Spears er nú búin að skilja í annað skiptið á ævinni en hjónaband hennar og Kevin Federline entist í tvö ár. Það er því spurning hvernig henni gengur næst? Allt er þegar þrennt er, ekki satt?

.

.