Lífið

Surtsey er sjálfstætt ríki

Björk býr í íshöll með fjölda vélmenna, að sögn Óalfræðibókarinnar.
Björk býr í íshöll með fjölda vélmenna, að sögn Óalfræðibókarinnar.

Margir þekkja Wikipedia, alfræðiorðabókina á netinu sem allir geta breytt og bætt upplýsingum í. Færri þekkja þó Uncyclopedia, Óalfræðibókina, sem allir geta breytt og bætt bulli í.

Uncyclopedia, eða „Óalfræðibókin", lítur nákvæmlega eins út og Wikipedia við fyrstu sýn, en við nánari skoðun sést að allt sem í henni stendur er algjör vitleysa. Á síðunni má lesa að Jesús Kristur hafi verið 56. forseti Bandaríkjanna, Grænland sé hitabeltiseyja og að strandvörðurinn David Hasselhoff sé einn virtasti vísindamaður heims. Hann hafi einnig verið helsta orsök falls Berlínarmúrsins og sameiningar Austur- og Vestur-Þýskalands.

Öllum greinunum fylgja svo tilvitnanir í rithöfundinn Oscar Wilde, sem hefur margt misgáfulegt um flest að segja, og marga aðra, þar á meðal leikarana Mr. T og Samuel L. Jackson og George Bush Bandaríkjaforseta.

Ísland fær að sjálfsögðu umfjöllun eins og í öllum góðum fræðiritum. Samkvæmt Óalfræðibókinni tala Íslendingar „björksku", enda ræður söngkonan ástsæla, Björk Guðmundsdóttir, ríkjum á landinu.

Svarthöfði er hins vegar konungur landsins og hefur verið það síðan 1906. Danir viðurkenna ekki sjálfstæði landsins og kindur eru helsti gjald­miðillinn.

Bobby Fischer er helsta innflutningsvara Íslands samkvæmt síðunni og Baugur Group það helsta sem Íslendingar flytja út. Þjóðsöngur landsins var „Er nokkuð rangt við dýrakynlíf?" þar til honum var skipt út fyrir „Við treystum á þorskinn". Surtsey er hins vegar sjálfstætt kommúnistaríki, sem hefur slitið tengslum við Ísland.

Á annarri eyju nálægt Íslandi er Nýja-Bjarkarborg. Hún skiptist í tvennt, annars vegar íshöll Bjarkar og hins vegar hverfi fátækra þræla, sem búa í 30 manna hópum í moldarkofum. Þrælarnir eru alls um 15 þúsund talsins, en í íshöll Bjarkar býr enginn nema hún og fjöldi þjónustuvélmenna.

Meira rugl má lesa á síðunni sjálfri, www.uncyclopedia.org, og getur hún verið ágætis tímaþjófur í skammdeginu.steindor@frettabladid.is

Bobby Fischer skákmeistarinn er helsta innflutningsvara Íslands.


.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.